©2018 by Vegan Heilsa. Proudly created with Wix.com

Search
  • Vegan heilsa

NICECREAM með hindberjum og kakónibbum

Updated: Jul 4, 2019

Grænkerinn Elín Skúladóttir heldur erindið Hvað get ég gert? á ráðstefnunni Vegan heilsa. Elín segir sögu sína og fjölskyldu sinnar af því að skipta yfir í hreint vegan mataræði í miðri lyfjameðferð. Hér deilir Elín mjög einfaldri uppskrift af ís sem hún hefur reynt á börnum og fullorðnum.

Elín Skúladóttir

www.veganheilsa.is

@veganheilsa


Ég fylgi að mestu hreinu vegan mataræði, það þýðir að engu er bætt í þann mat sem ég borða og ekkert er fjarlægt úr honum, og ég borða almennt ekki neinn sykur eða önnur sætuefni. Ég hef stundum verið spurð og hvað borðar þú þá?! Kannski ekki skrítið að menn spyrji en ég borða margt OG MIKIÐ! Ef mig langar að gera vel við mig fæ ég mér NICECREAM.


NICECREAM eða bananaís er góðgæti sem er hægt að borða án þess að fá gramm af samviskubiti. Bananar eru mjög næringarríkir, mettandi og fullir af A, B og E vítamínum. Það er einnig mjög mikið af steinefnum í þeim eins og fósfór, járn, kalk og sink. Börnunum mínum finnst NICECREAM besti ísinn sem þau hafa smakkað. Það er reyndar ekki mjög mikið úrval af ís á heimilinu og það er mjög langt síðan ég boðið þeim í ísferð. Þau eru því kannski ekki góður mælikvarði. En í bókinni sinni Grænkerakrásir segist Guðrún Sóley Gestsdóttir viss um að NICECREAM sé áttunda undur veraldar. Ég verð eiginlega að taka undir það!


Ef þú hefur ekki smakkað þá er ekki eftir neinu að bíða!


Það er gott að nota vel þroskaða banana. Krónan selur oft mjög þroskaða banana á útsöluverði, þeir eru með rauðu límbandi. Þegar þeir eru til sölu þá kaupi ég oft helling, sker þá niður og set hæfilega skammtastærð fyrir fjölskylduna í frysti.


Þú getur gert bananaísinn í matvinnsluvél eða í blandara. Það er gott að taka bananana úr frystinum og leyfa þeim að standa í tíu mínútur. Ég á mjög öflugan blanara en ég hef gert nokkrar tilraunir til þess að bræða úr honum með óþolinmæði. Svo ef þetta gengur illa geturðu bætt smá jurtamjólk við til þess að koma öllu af stað. Ef það dugar ekki þá er gott að bíða aðeins svo að blandarinn skemmist nú ekki.


Stelpan mín var lasin á fallegu sumarkvöldi og því ákvað ég útbúa NICECREAM með hindberjum fyrir hana. Hún er fjögurra ára og finnst allt betra sem er bleikt. En það eru endalausir möguleikar á útfærslum.

NICECREAM fyrir tvo til þrjá

6 frosnir bananar

1 bolli frosin hindber

2 msk kakónibbur


Aðferð

1. Afhýðið bananana, skerið í bita og frystið yfir nótt.

2. Takið bananana úr fryst og leyfið þeim að þiðna í a.m.k. 10 mínútur.

3. Setjið allt í blandara eða matvinnsluvél og blandið þar til úr verður hnausþykkur ís. Þetta getur tekið tíma!


Lentirðu í vandræðum? Sendu okkur póst á heilsa@veganheilsa.is


Við munum deila uppskriftum af einföldum, hollum og gómsætum vegan uppskriftum reglulega. Fylgist með! Við erum einnig á Instagram og Facebook @veganheilsa.

149 views